Innlent

Hæsti­réttur segir tíma í flug­vél vera vinnu­tíma

Jón Þór Stefánsson skrifar
Ferðirnar sem málið varðar áttu sér stað árið 2018 þegar maðurinn fór í nokkur skipti til og frá Íslandi til Ísrael og Sádí Arabíu. Myndin er úr safni.
Ferðirnar sem málið varðar áttu sér stað árið 2018 þegar maðurinn fór í nokkur skipti til og frá Íslandi til Ísrael og Sádí Arabíu. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur viðurkennt að starfsmaður átti að fá greitt fyrir þann tíma sem hann varði í flugvélum í vinnuferð. Þar með staðfestir Hæstiréttur dóm Landsréttar.

Starfsmaðurinn, sem heitir Eyjólfur Orri Sverrisson og er flugvirki á vegum Samgöngustofu, fór nokkrum sinnum í vinnuferðir til austurlanda nær árið 2018. Flugin sem málið varða voru til og frá Íslandi til og frá  Ísrael og Sadí Arabíu.

Óumdeilt er í málinu að Eyjólfur hafi farið í umræddar ferðir og að þær hafi verið vegna vinnu hans hjá Samgöngustofu. Hins vegar var deilt um hvort tíminn sem fór í flugferðirnar væri vinnutími.

Um var að ræða löng ferðalög utan hefðbundins vinnutíma og áfangastaðurinn var ekki hans hefðbundna starfsstöð.

Hæstiréttur felldi dóm í málinu í dag.Vísir/Vilhelm

Í dómi Landsréttar var vísað í álit EFTA-dómstólsins og Hæstiréttur vísar í það í dómi sínum. Þó að álit EFTA sé ekki bindandi var það mat Hæstaréttar að íslenska ríkið hafi ekki með neinum rökum sýnt fram á að ekki skyldi byggja á því.

Niðurstaðan var sú að tíminn sem maðurinn varði í flugvél vegna ferðarinnar teldist til vinnutíma.

Landsréttur dæmdi ríkið til að greiða manninum fimm milljónir króna vegna málsins, en þegar Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi rétt mannsins til launa voru honum dæmdar 3.6 milljónir. Líkt og áður segir raskaði Hæstiréttur ekki dómi Landsréttar.

Þá er ríkinu gert að greiða Eyjólfi málskostnað fyrir Hæstarétti sem hleypur á einni milljón króna. Það bætist ofan á fimm milljóna málskostnað sem Landsréttur gerði ríkinu að greiða í héraði og í Landsrétti.

Þegar Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir tók dómstóllinn fram að málið myndi að óbreyttu leiða til kerfisbreytinga á vinnumarkaði starfsfólks sem ferðast til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfstöðvar sinnar.


Tengdar fréttir

Deila um laun í ferðalögum fer fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur hefur veitt íslenska ríkinu leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í máli sem snýr að launum flugvirkja fyrir tíma sem hann varði í flugvélum á ferðalögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×