PSG tapaði leiknum í gær 1-0, og einvíginu samtals 2-0, en það er nánast með ólíkindum að liðið hafi ekki skorað í París í gær.
PSG átti meðal annars fjórar marktilraunir sem fóru í stöng eða slá, og alls þrjátíu skot í leiknum. Tækifæri þeirra til að skora voru það góð að „vænt mörk“ (e. expected goals) hjá PSG í gær voru 3,25.
Franskur blaðamaður spurði Enrique eftir leik hvort að það væri „bara óheppni“ að engin af tilraunum PSG skyldi fara í markið, í stað þess að fara í stöng eða slá, eða hvort að fleira spilaði inn í. Hvort það væri skortur á andlegum styrk leikmanna PSG, og hvort það hefði haft áhrif á tilraunir þeirra að hafa tvisvar skotið í tréverkið í fyrri leik liðanna. Eða hvort Dortmund hefði einfaldlega neytt leikmenn í skot sem ekki færu á markið.
"Are you serious?" 🤨
— BBC Sport (@BBCSport) May 8, 2024
Luis Enrique was not a fan of this question after PSG were knocked out of the Champions League 😬#BBCFootball pic.twitter.com/3kKs9ouE4W
Enrique var vægast sagt hneykslaður á spurningunni og svaraði: „Er þetta alvöru spurning? Er þér alvara?“ og bætti svo við:
„Það er munur á því hvort boltinn fer í stöng eða í markið. Í hverju felst hann? Það gæti verið hinn heilagi andi sem svífur um. Ef að eitthvað lið var óheppið þá var það Paris St. Germain. Vænt mörk liðsins í þessum leik voru þrjú talsins. Þrjú!“
Leit PSG að fyrsta Evrópumeistaratitlinum heldur áfram á næstu leiktíð en Dortmund spilar úrslitaleikinn við sigurliðið úr einvígi Real Madrid og Bayern, sem mætast í kvöld.