Ráðherrarnir hittust í Beijing í Kína í morgun en ferð Blinkens er ætlað að koma samskiptum stórveldanna tveggja í betra horf en verið hefur síðustu misseri.
Wang var þó nokkuð herskár á fundinum í morgun og segir breska ríkisútvarpið að hann hafi byrjað á því að spyrja Blinken hvort ríkin ættu að halda áfram á réttri braut eða hvort spennan fari að magnast á ný.
Kínverski ráðherrann sagði að þrátt fyrir að samskipti ríkjanna hafi verið að batna, séu enn ljón í veginum. Því væri tvennt í stöðunni, ríkin gætu annað hvort starfað saman eða tekist á, og jafnvel væri hætta á átökum.
Wang tók þó ekki sérstaklega fram um hvaða rauðu strik væri að ræða, en ríkin hafa deilt um útþennslu Kínverja á Suður-Kínahafi, stuðning Bandaríkjanna við Taívan og mannréttindi, svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa verið harðar deilur um Tik Tok samskiptamiðilinn sem er í eigu Kínverja en þingmenn á Bandaríkjaþingi vilja banna.