Mótaráð UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, komst að þessari niðurstöðu og búist er við því að framkvæmdaráð sambandsins staðfesti þessa ákvörðun síðar í þessari viku.
Til stóð að breyta aftur til fyrra horfs og hafa 23 leikmanna hópa í sumar líkt og tíðkast hafði fram að síðasta EM, en þá var ákveðið að hafa 26 manna hópa vegna óvissu sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum.
Stærri hópar voru einnig leyfðir á HM í Katar 2022 í ljósi þess að mótið fór fram á miðju keppnistímabili.
Nokkrir landsliðsþjálfarar gagnrýndu það að færri leikmenn færu á EM, og á nýlegum þjálfarafundi kom fram sú tillaga að 26 manna hópar yrðu leyfðir. Ronald Koeman, þjálfari Hollands, hafði til að mynda sagt fyrri ákvörðun UEFA „fjarstæðukennda“.
Alls taka 24 þjóðir þátt á EM líkt og tvö síðustu mót, en Ísland rétt missti af mótinu í ár eftir tap gegn Úkraínu í úrslitaleik umspils. Ef ekkert óvænt gerist, og ákvörðun um 26 manna hópa verður samþykkt, munu 624 leikmenn því fara á mótið.
EM hefst 14. júní og stendur yfir til 14. júlí.