Innlent

Hvetja til bólu­setninga fyrir ferða­lög til Evrópu og Banda­ríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Hægt er að fá ráðleggingar um bólusetningar fyrir ferðalög í netspjalli Heilsuveru.
Hægt er að fá ráðleggingar um bólusetningar fyrir ferðalög í netspjalli Heilsuveru. Vísir/Vilhelm

Fólk sem hyggur á ferðalög ætti að fara yfir bólusetningar sínar og barna sinna hvort sem farið er á framandi slóðir eða stefnt á stutta ferð til nágrannalandanna.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þar segir að mikilvægt sé að kanna hvort bæta þurfi við bólusetningum með góðum fyrirvara áður en flogið sé af landi brott.

Haft er eftir Nönnu Sigríði Kristinsdóttur, fagstjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að hingað til hafi fólk aðallega skoðað bólusetningar fyrir ferðalög á fjarlægar slóðir, til Asíu, Afríku eða Suður-Ameríku til dæmis. „Það hafa komið upp alvarlegir faraldrar í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarið sem kalla á að við endurskoðum þá nálgun og tryggjum að við séum nægilega vel bólusett þó við ætlum ekki í langferð,“ segir Nanna.

Hægt er að fá ráðleggingar um bólusetningar fyrir ferðalög í netspjalli Heilsuveru. Fylla þurfi inn upplýsingar um fyrirhugað ferðalag og fær viðkomandi sendar upplýsingar um ráðlagðar bólusetningar. 

„Fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu og skráð er á heilsugæslustöðvar sem ekki tilheyra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þarf að heyra í sinni stöð til að fá ráðleggingar um bólusetningar.

Meðal þess sem yfirfara þarf fyrir ferðalög til Evrópu er hvort nauðsynlegt sé að fá örvunarskammt af bóluefni við sjúkdómum sem börn eru bólusett fyrir, til dæmis barnaveiki, kíghósta, stífkrampa og mænusótt ásamt því hvort bólusetja þurfi við lifrabólgu A og B,“ segir í tilkynningunni frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×