Erlent

Heita Úkraínu 61 milljarði dala í stuðning

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Forseti fulltrúaþingsins Mike Johnsson ávarpar fjölmiðla í kjölfar atkvæðagreiðslunnar.
Forseti fulltrúaþingsins Mike Johnsson ávarpar fjölmiðla í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. AP/J. Scott Applewhite

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur loks samþykkt 60 milljarða dala aðstoð við Úkraínu eftir margra mánaða töf þingmanna Repúblikana á bandi Donalds Trump. Frumvarpið var samþykkt með miklum meirihluta.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, fylgdist vel með vendingum vestanhafs enda er fjárhagslegur og hernaðarlegur stuðningur Bandaríkjanna gríðarlega mikilvægur fyrir baráttu Úkraínumanna. Hann birti færslu á samfélagsmiðilinn X þar sem hann vottaði báðum flokkum þakklæti sitt.

„Lýðræði og frelsi mun alltaf hafa vægi í heiminum og mun aldrei bregðast svo lengi sem Bandaríkin standa vörð um það. Dýrmæta hjálparlöggjöfin sem þingið samþykkti í dag mun koma í veg fyrir að stríðið verði umfangsmeira, bjarga þúsundum mannslífa og styrkja báðar þjóðir,“ skrifar hann.

„Réttlátur friður og öryggi nást aðeins með styrk,“ bætir hann við.

Fjölþættur stuðningur

Af þessum 61 milljarði bandaríkjadala, sem jafngildir um átta billjónum íslenskra króna, fara 23 í að endurbæta vopnaforða Bandaríkjanna. Aðrir 14 milljarðar fara svo í að kaupa vopn handa Úkraínumönnum beint frá bandarískum vopnaframleiðendum.

Einnig voru ellefu milljarðar eyrnamerktir viðveru fulltrúa bandaríska hersins á svæðinu þar sem hann tekur þátt í þjálfun og njósnastarfi. Restin fer til uppihalds úkraínsku ríkisstjórnarinnar, launagreiðslur og eftirlaunagreiðslur ásamt fleiru sem hún á í erfiðleikum með að halda í við vegna gífurlegs kostnaðar stríðsins.

Að frumvarpinu samþykktu geta Bandaríkjamenn komið vopnum og skotfærum til Úkraínu á einungis nokkrum dögum. Bandaríski herinn heldur uppi þónokkrum vopnabúrum í Evrópu sem geta séð Úkraínumönnum fyrir stórskotaliðsfærum og eldflaugum.

Hvíta húsið styður frumvörpin sem um ræðir og hefur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lýst því yfir að hann muni staðfesta lögin með undirskrift sinni.


Tengdar fréttir

Fengu aðstoð Demókrata við að koma hernaðaraðstoð úr nefnd

Allt stefndi í að frumvörp um hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum til Úkraínu, Ísrael og bandamanna Bandaríkjanna í Austur-Asíu myndu festast í nefnd í gær, þar til Demókratar komu Mike Johnson, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til aðstoðar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×