Erlent

Kveikti í sér fyrir utan dóms­húsið þar sem réttað er yfir Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump við dómshúsið á Manhattan þegar réttarhöldin héldu áfram í morgun.
Trump við dómshúsið á Manhattan þegar réttarhöldin héldu áfram í morgun. AP/Spencer Platt

Karlmaður kveikti í sjálfum sér í garði gegnt dómshúsinu þar sem réttarhöld yfir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fara fram á Manhattan í New York. Vegfarendur slökktu í manninum sem var fluttur burt á sjúkrabörum.

AP-fréttastofan hefur eftir lögreglunni að maðurinn sé í lífshættu á brunadeild sjúkrahús. Talið er að maðurinn hafi komið frá Flórída. Hann hafi dregið fram dreifibréf með samsæriskenningum og dreift þeim í garðinum áður en hann kveikti í sér.

Samkvæmt heimildum CNN-fréttastöðvarinnar hafði karlmaðurinn kastað dreifibréfunum upp í loftið og síðan síðan helt bensíni úr nokkrum brúsum yfir sig og kveikt í sér. 

Maðurinn er sagður hafa verið með tvö stór spjöld. Á öðru þeirra hafi staðið eitthvað um að Trump og Joe Biden forseti væru saman í liði og ætluðu sér að fremja fasískt valdarán. Á hinu spjaldinu hafi verið auglýsing fyrir bloggsíðu.

Réttarhöldunum yfir Trump er lokið í dag eftir að loksins tókst að skipa kviðdóm og varamenn. Dómari sagði kviðdómnum að opnunarræður verjenda og saksóknara yrðu fluttar á mánudagsmorgun.

Trump er ákærður fyrir að falsa bókhald fyrirtækisins síns til þess að hylma yfir greiðslur til fyrrverandi klámstjörnu fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Konan hélt því fram að þau Trump hefðu átt í kynferðislegu sambandi. Máli er fyrsta sakamálið í sögu Bandaríkjanna þar sem fyrrverandi forseti er sakborningur.

Fréttin verður uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×