Fótbolti

Marka­drottningin mun ná þrettán árum hjá franska fé­laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ada Hegerberg hefur spilað með Olympique Lyon frá 2014 og er þegar búin að skora 264 mörk fyrir franska félagið.
Ada Hegerberg hefur spilað með Olympique Lyon frá 2014 og er þegar búin að skora 264 mörk fyrir franska félagið. Getty/Alex Pantling

Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg hefur skrifað undir nýjan samning við franska félagið Lyon en nýi samningurinn nær til sumarsins 2027.

Núgildandi samningur Hegerberg var að renna út í sumar og það var vitað af því að umboðsmaður Hegerberg væri að ræða við önnur félög. Hegerberg var meðal annars orðuð við Evrópumeistara Barcelona en ákvað að lokum að semja aftur við franska félagið.

Þessi 28 ára gamli framherji hefur spilað með Lyon frá árinu 2014 og hefur skorað 264 mörk í 244 leikjum með félaginu.

Nýi samningurinn þýðir að hún mun ná að spila í þrettán ár með franska félaginu en það er mjög sérstakt að erlendur leikmaður nái að gera slíkt hjá eina og sama félaginu.

Hegerberg hefur unnið fjölmarga titla með Lyon, hún hefur unnið Meistaradeildina sex sinnum, franska titilinn átta sinnum og franska bikarinn sex sinnum. Á þessu tímabili hefur Hegerberg skorað 24 mörk í 26 leikjum.

„Ég er svo ánægð að við gátum gengið frá þessu. Öll sagan hefur ekki verið skrifuð,“ sagði Hegerberg í fréttatilkynningu.

„Ég trúi því virkilega að við höfum hér lið sem getur unnið fleiri titla á komandi árum og að við höfum þann stuðning sem þarf til að halda liðinu við toppinn,“ sagði Hegerberg.

Hegerberg var árið 2018 fyrsta konan til að vinna Gullhnöttinn.

Hún hefur skorað 47 mörk í 81 landsleik fyrir Noreg en áður hún kom til Lyon spilaði Hegerberg í eitt tímabil með þýska félaginu Turbine Potsdam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×