Fótbolti

Ætla prófa að refsa mark­vörðum með inn­köstum eða horn­spyrnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins, með boltann.
 Jordan Pickford, markvörður Everton og enska landsliðsins, með boltann. Getty/Robbie Jay Barratt

Reglugerðarsamband fótboltans, International Football Association Board, skammstafað IFAB, er alltaf að leita leiða til að útrýma leiktöfum úr fótboltanum. Nú eru nýjar hugmyndir að komast á næsta stig.

Strangari reglur og fleiri gul spjöld fara á loft til að vinna á móti freistingum leikmanna til að reyna að tefja leikinn.

Nú er komin fram enn ein hugmyndin að tilraunaverkefni í þá átt en þessi snýr að því að koma í veg fyrir leiktafir markvarðanna sjálfra. ESPN fjallar um þetta.

Tvær refsingar eru í boði fyrir nýtt tilraunaverkefni. Það er að mótherjarnir fái annað hvort innkast eða hornspyrnu verði markvörðurinn uppvís að því að taka sér of langan tíma að sparka boltanum í leik.

Tilraunin mun standa yfir á 2024-25 tímabilinu og árangurinn af því verður síðan grannskoðaður á fundi IFAB í lok næsta árs. Ef að þessi tilraun gengur vel þá gæti þessi reglubreyting tekið gildi að full fyrir 2026-27 tímabilið.

Markmenn mega ekki halda boltanum lengur en í sex sekúndur samkvæmt reglunum og brjóti þeir þessa reglu þá á að dæma á þá óbeina aukaspyrnu þar sem þeir stóðu með boltann þegar dómarinn flautaði.

Í ljós hefur komið að dómarar hafa verið hikandi í því að dæma á markverði vegna þess að það er svo hörð refsing að dæma á þá aukaspyrnu í eigin vítateig. Markverðir hafa því gengið á lagið og eru oft miklu lengur með boltann en sex sekúndur.

Það er samt vilji hjá IFAB að þvinga þá til að koma boltanum í leik sem fyrst í stað þess að tefja. Því er ætlunin að prófa það að herða eftirlit dómara með sex sekúndunum en um leið refsa markvörðunum ekki með aukaspyrnu heldur með annað hvort innkasti við vítateiginn eða með hornspyrnu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×