Albert skoraði af víta­punktinum í jafn­tefli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert Guðmundsson er sannkallaður lykilmaður í liði Genoa.
Albert Guðmundsson er sannkallaður lykilmaður í liði Genoa. Getty/Timothy Rogers

Albert Guðmundsson skoraði mark Genoa í 1-1 jafntefli liðsins við Fiorentina í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í fótbolta. Sara Björk Gunnarsdóttir kom inn af bekknum þegar Juventus tapaði fyrir Roma í uppgjöri toppliðanna í Serie A kvenna megin.

Albert hefur verið frábær það sem af er leiktíð og hann kom Genoa yfir úr vítaspyrnu á 42. mínútu. Heimamenn í Fiorentina höfðu komist yfir um miðbik fyrri hálfleiks en mark Andrea Belotti var dæmt af vegna rangstöðu.

Snemma í síðari hálfleik jafnaði Jonathan Ikoné metin eftir undirbúning Giacomo Bonaventura. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Artemio Franchi-vellinum í Flórens 1-1.

Genoa er í 12. sæti með 39 stig.

Sara Björk kom inn af bekknum þegar Juventus sótti verðandi Ítalíumeistara Rómar heim. Staðan var 1-1 þegar Sara Björk kom inn á en þegar tíu mínútur lifðu leiks fékk Barbara Bonansea sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði Juventus. Það nýttu Rómverjar sér og fimm mínútum síðar skoruðu þær sigurmarkið, lokatölur 2-1.

Roma er á toppi Serie A með 60 stig að lokinni 21 umferð á meðan Juventus er í 2. sæti með 47 stig.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira