Fótbolti

La Liga: Topp­liðin tvö unnu nauma sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggði sigurinn með ótrúlegu marki.
Tryggði sigurinn með ótrúlegu marki. Cristian Trujillo/Getty Images

Real Madríd og Barcelona unnu bæði leiki sína í La Liga, spænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, í dag með einu marki gegn engu. Þá vann Atlético Madríd góðan sigur á Girona í baráttunni um 3. sætið.

Real Madríd vann 1-0 útisigur á Mallorca þökk sé stórglæsilegu marki Aurélien Tchouaméni í upphafi síðari hálfleiks.

João Félix skoraði sigurmark Barcelona í 1-0 útisigri á Cádiz. Þá vann Atlético Madríd 3-1 sigur á Girona á heimavelli.

Artem Dovbyk kom Girona yfir snemma leiks en Antonie Griezmann jafnaði metin úr vítaspyrnu á 34. mínútu. Angel Correa kom heimamönnum svo yfir þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik.

Griezmann bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Atl. Madríd eftir fimm mínútna leik í síðari hálfleik, lokatölur 3-1.

Þegar 31 umferð er búin í La Liga er Real Madríd á toppnum með 78 stig. Þar á eftir kemur Barcelona með 70 stig, Girona er með 65 og Atl. Madríd 61 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×