Erlent

Sex stungnir til bana í verslunar­mið­stöð

Samúel Karl Ólason skrifar
Sex létu lífið og margir eru sagðir hafa særst, þar á meðal eitt ungt barn.
Sex létu lífið og margir eru sagðir hafa særst, þar á meðal eitt ungt barn. AP/Rick Rycroft

Sex voru stungnir til bana í verslunarmiðstöð í Sydney í Ástralíu í morgun þegar maður fór að stinga fólk af handahófi. Margir eru sagðir særðir og þar á meðal ungt barn en árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögregluþjóni.

Ástand þeirra sem slösuðust liggur ekki fyrir. Það sama má segja um tilefni árásarinnar en Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, segir það til rannsóknar. Maðurinn er talinn hafa verið einn að verki.

Hann sagðist ekki vilja velta vöngum yfir mögulegu tilefni árásarinnar og sagði að það yrði rannsakað ítarlega.

Albanese hrósaði í hástert lögreglukonu sem skaut árásarmanninn en hún er sögð hafa hlaupið beint inn í verslunarmiðstöðina og mætt árásarmanninum ein.

„Hugrekki þessa lögregluþjóns … Hún er svo sannarlega hetja,“ sagði Albanese. Þá sagðist hann fullviss um að hún hefði bjargað mannslífum.

Mynd af lögregluþjóninum og árásarmanninum, eftir að hún skaut hann, hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í Ástralíu og víðar.

AP fréttaveitan hefur eftir Anthony Cooke, næstráðandi hjá lögreglunni í Sydney, að ekki liggi fyrir hver árásarmaðurinn sé. Þá sagði hann að ekki væri búið að útiloka að um hryðjuverk væri að ræða.

Uppfært: Tala látinna hefur hækkað úr fimm í sex.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×