Erlent

Skotinn í höfuðið fyrir framan tólf ára son sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikael Kängan og tólf ára sonur hans voru á leið í sund á miðvikudaginn þegar Mikael var skotinn í höfuðið í undirgöngum.
Mikael Kängan og tólf ára sonur hans voru á leið í sund á miðvikudaginn þegar Mikael var skotinn í höfuðið í undirgöngum. EPA/Claudio Bresciani

Sænskur maður var skotinn til bana fyrir framan tólf ára son sinn á miðvikudaginn. Feðgarnir voru þá að ganga í gegnum undirgöng og á leið í sund í bænum Skärholmen, úthverfi Stokkhólms, þegar hinn 39 ára gamli Mikael Kängan var skotinn af ungum mönnum.

Samkvæmt fréttum frá Svíþjóð virðist sem Kängan hafi deilt við ungmennin sem skutu hann svo í höfuðið.

Umfangsmikil rannsókn hefur verið sett á laggirnar en enginn hefur verið handtekinn, enn sem komið er. Aftonbladet hefur þó eftir forsvarsmönnum lögreglunnar að lögregluþjónar telji sig hafa nokkuð góða hugmynd um hverja þeir þurfi að finna.

Í samtali við Ríkisútvarp Svíþjóðar, SVT, segja íbúar Skärholmen að ástandið fari sífellt versnandi í bænum þar sem ungmenni séu sífellt að ógna íbúum.

Mágur Kängans sagði í viðtali í morgun að hann hefði engan áhuga á að ræða við þá stjórnmálamenn sem hafi reynt að setja sig í samband við fjölskylduna, þar sem þeir gerðu ekki nóg til að berjast gegn glæpagengjum.

Þeir ættu frekar að einbeita sér að vinnu sinni, sagði Elias Demir, samkvæmt frétt TV4.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, minntist Kängans í ræðu í dag þar sem hann hét einnig umfangmiklum aðgerðum gegn glæpagengjum í Svíþjóð. Hét hann því að gripið yrði til aðgerða gegn glæpagengjum og að vísa meðlimum gengja sem ekki væru sænskir ríkisborgarar úr landi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×