Erlent

„Lætur þig óska þess að hafa aldrei fæðst“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jeremy Paxman er einn þekktasti fjölmiðlamaður Breta.
Jeremy Paxman er einn þekktasti fjölmiðlamaður Breta. BBC

Parkinson-sjúkdómurinn er þannig að hann „lætur þig óska þess að hafa aldrei fæðst“, segir fjölmiðlamaðurinn Jeremy Paxman. Ummælin lét hann falla er hann afhenti stjórnvöldum áskorun um að ráðast í átak til að bæta þjónustu vegna sjúkdómsins.

Paxman, sem er 73 ára, greindi frá því áirð 2021 að hann hefði greinst með Parkinson. Hann stjórnar nú hlaðvarpinu „Movers and Shakers“, þar sem fjallað er um áskoranirnr við að lifa með sjúkdómnum.

Í gær var alþjóðlegur dagur Parkinson-sjúkdómsins og af því tilefni afhenti Paxman stjórnvöldum undirskriftalista með tugþúsundum undirskrifta og „Parky Charter“; fimm tillögur til að bæta þjónustu við Parkinson-sjúklinga.

Tillögurnar fela meðal annars í sér greiðara aðgengi að sérfræðiþjónustu, útgáfu upplýsingabæklings, Parkinson-passa til að greiða fyrir aðgengi einstaklinga með Parkinson, bætta alhliða þjónustu og auknar fjárveitingar til rannsókna á sjúkdómnum.

Fjölmiðlamaðurinn, sem er þekktur fyrir að láta allt flakka, var afar gagnrýninn á stjórnvöld þegar hann afhenti undirskriftalistann og tillögurnar og sagðist ekki gera sér vonir um nein viðbrögð frá ráðamönnum.

„Sú staðreynd að [stjórnvöld] hafa afneitað allri ábyrgð hingað til bendir til þess að þau munu ekki bæta sig,“ sagði Paxman. Hann og aðrir upplifðu að þeir væru að berja höfðinu við steininn.

Þá gagnrýndi hann framkomu almennings gagnvart einstaklingum með Parkinson. „Þig langar að segja: Drullaðu þér úr veginum... það er það sem þig langar að segja.“

Áætlað er að einn af hvejrum 37 Bretum greinist með Parkinson á lífsleiðinni en 153 þúsund eru sagðir þjást af sjúkdómnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×