Innlent

Gunn­laugur Rögn­valds­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnlaugur Rögnvaldsson var frumkvöðull á sviði umfjöllunar um Formúlu 1 hér á landi.
Gunnlaugur Rögnvaldsson var frumkvöðull á sviði umfjöllunar um Formúlu 1 hér á landi. Mynd/Jorge rosso

Gunnlaugur Rögnvaldsson, blaðamaður og ljósmyndari, er látinn. Hann lést síðastliðinn þriðjudag, 62 ára að aldri. Gunnlaugur var meðal annars þekktur fyrir umfjöllun sína um Formúlu 1 og aðrar aktursíþróttir hér á landi og stýrði þáttum og lýsti keppnum í sjónvarpi.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að hann hafi snemma fengið áhuga á ljósmyndun og akstursíþróttum og meðal annars keppt í rallakstri og torfæru, bæði hérlendis og erlendis.

Gunnlaugur gaf um tíma út tímaritið 3T þar sem fjallað var um tæki, útivist og tómstundir. Einnig starfaði hann einnig fyrir SAM-útgáfuna sem gaf út Samúel og Vikuna og þá skrifaði hann um akstursíþróttir í Morgunblaðið, auk þess að taka ljósmyndir.

Þá var Gunnlaugur frumkvöðull í umfjöllun um Formúluna hér á landi, hóf að stýra þáttum um íþróttina í Ríkissjónvarpinu árið 1997, þar sem hann lýsti keppnum í beinni útsendingu og tók viðtök við helstu stjörnur íþróttarinnar.

Síðar lýsti hann keppnum og stýrði þáttum um Formúluna á Stöð 2, auk þess að sinna þar umfjöllun um fleiri akstursíþróttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×