Fótbolti

Neituðu að ræða við sjón­varps­stöð vegna niðrandi um­mæla um Yamal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lamine Yamal með Nuno Mendes á hælunum í leik Paris Saint-Germain og Barcelona.
Lamine Yamal með Nuno Mendes á hælunum í leik Paris Saint-Germain og Barcelona. getty/Christian Liewig

Barcelona og Paris Saint-Germain neituðu að veita sjónvarpsstöðinni Movistar viðtal vegna ummæla álitsgjafa hennar um Börsunginn unga, Lamine Yamal.

Barcelona sótti PSG heim á Parc des Princes í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Börsungar unnu leikinn, 2-3.

Fyrir leikinn birti Movistar myndir af hinum sextán ára Yamal að halda bolta á lofti. Gamli markvörðurinn Germán Burgos sagði að ef hlutirnir gengju ekki upp hjá Yamal gæti hann endað á umferðarljósum.

Hann vísaði þar í fólk sem framkvæmdir alls konar kúnstir á umferðarljósum í von um að fá pening. Ummæli Burgos þóttu niðrandi og jafnvel rasísk en Yamal er dökkur á hörund.

Vegna ummæla Burgos neituðu Barcelona og PSG að ræða við Movistar eftir leikinn í gær. Sjónvarpsstöðin fordæmdi ummæli Burgos og sagðist ætla að grípa til aðgerða til svona lagað endurtæki sig ekki. Burgos baðst sömuleiðis afsökunar á ummælunum.

„Ég ætlaði ekki að móðga neinn. Við tölum um fótbolta, ekkert annað. Ef hann móðgaðist biðst ég afsökunar. Ég er miður mín og biðst afsökunar opinberlega,“ sagði Burgos sem var lengi aðstoðarmaður Diegos Simeone hjá Atlético Madrid auk þess að leika með liðinu.

Yamal var í byrjunarliði Barcelona gegn PSG í gær og lék fyrstu 61 mínútu leiksins. Seinni leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn í næstu viku.

Yamal hefur slegið í gegn í vetur og leikið 41 leik í öllum keppnum og skorað sex mörk. Hann hefur spilað sex landsleiki fyrir Spán og skorað tvö mörk. Yamal er fæddur 2007 og verður ekki sautján ára fyrr en í júlí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×