Enski boltinn

Fleiri stig tekin af Everton

Sindri Sverrisson skrifar
Everton er í harðri fallbaráttu.
Everton er í harðri fallbaráttu. Getty/Matt McNulty

Tvö stig til viðbótar hafa verið tekin af Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, vegna brota á reglum um fjárhagslegt aðhald félaganna.

Þetta er í annað sinn á tímabilinu sem að stig eru dregin af Everton fyrir brot á fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar.

Reglurnar segja til um að félög megi alls tapa 105 milljónum punda yfir þriggja ára tímabil en Everton tapaði 16,6 milljónum punda meira en það, á þriggja ára tímabilinu sem lauk 2023.

Áður höfðu sex stig verið dregin af liðinu í febrúar fyrir að vera með of mikið tap á þriggja ára tímabilinu sem lauk 2022. Upphaflega voru reyndar tíu stig tekin af liðinu en eftir áfrýjun urðu þau sex.

Eftir að hafa misst samtals átta stig vegna brota sinna er Everton í mikilli fallhættu en liðið er með 27 stig í 16. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Nottingham Forest og Luton en síðastnefnda liðið situr í fallsæti. Everton á þó sjö leiki eftir en hin tvö liðin sex, en Everton væri núna í fallsæti ef liðið hefði ekki unnið Burnley 1-0 um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×