Landsliðskonan Berglind Björg gekk í raðir PSG árið 2022 en fékk lítið að spila á sínu fyrsta tímabili. Það var svo sumarið eftir þar sem hún staðfesti að hún væri ólétt en skórnir væru hins vegar alls ekki farnir upp á hillu.
Vísir ræddi stuttlega við hinn 32 ára gamla framherja um væntanlega endurkomu á völlinn.
„Það er orðið mjög stutt í það núna. Er búin að vera undir góðri leiðsögn síðan ég átti strákinn minn. Höfum verið að taka þetta í skrefum, gera mikið af fyrirbyggjandi og styrktaræfingum svo ég meiðist ekki þegar ég sný aftur.“
„Hef svo verið í bolta með einkaþjálfara í nokkrar vikur núna, þannig að þegar ég skrifa undir hjá nýju liði í sumar þá get ég byrjað á fullu. Samningurinn minn í París rennur þá út og ég mun ekki framlengja við PSG.“
„Mér líður vel í líkamanum og get bókstaflega ekki beðið eftir að mæta aftur á völlinn,“ sagði Berglind Björg að lokum.
Hún kom víða við á sínum ferli og spilað á Ítalíu, í Hollandi, Frakklandi, Svíþjóð, Noregi sem og heima á Íslandi. Framherjinn sem hefur spilað 72 A-landsleiki vildi þó ekki gefa upp hvar næsti áfangastaður yrði.