Fótbolti

Ís­land upp um eitt sæti hjá FIFA en Norð­menn niður fyrir Malí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen og Albert Guðmundsson fagna marki þess síðarnefnda á móti Úkraínu.
Andri Lucas Guðjohnsen og Albert Guðmundsson fagna marki þess síðarnefnda á móti Úkraínu. Getty/Rafal Oleksiewicz

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hækkaði sig um eitt sæti á nýjasta styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins sem var gefinn út í morgun.

Íslenska liðið situr nú í 72. sæti á listanum en íslensku strákarnir fóru upp fyrir Bosníumenn að þessu sinni.

Íslenska liðið hafði ekki verið neðar á listanum í ellefu ár þegar liðið datt niður í 73. sætið á listanum sem var gefinn út í febrúar.

Sigur á Ísraelsmönnum í umspilinu hjálpar liðinu upp listann þrátt fyrir tap á móti Úkraínu nokkrum dögum síðar.

Norðmenn falla niður um eitt sæti og eru í 47. sæti listans. Norskir fjölmiðlar slá því upp að norska liðið sé nú komið niður fyrir Malí í FIFA-listanum. Panama og Rúmenía eru líka fyrir ofan norska landsliðið sem hefur ekki komist á stórmót síðan á EM 2000 þrátt fyrir að vera með tvo af öflugustu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í þeim Erling Haaland og Martin Ödegaard.

Argentína og Frakkland eru áfram í tveimur efstu sætunum en Belgar hoppa upp fyrir Englendinga og í þriðja sætið. Portúgalar komast líka upp fyrir Hollendinga og sitja nú í sjötta sætinu eða í næsta sæti á eftir Brasilíu.

Athygli vekur að Bandaríkjamenn eru komnir upp í ellefta sæti listans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×