Innlent

Ekki ljóst hvor hinna drukknu ók bílnum

Atli Ísleifsson skrifar
Rætt verður við mennina þegar þeir vakna og runnið hefur af þeim.
Rætt verður við mennina þegar þeir vakna og runnið hefur af þeim. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið tvo eftir umferðarslys sem varð í umdæminu. Báðir reyndust þeir drukknir og var ekki hægt að staðfesta hvor þeirra hafi ekið bílnum þegar slysið varð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Segir að rætt verði við mennina þegar þeir vakna og runnið hafi af þeim.

Annars segir að vaktin hafi verið fremur róleg en engu að síður hafi fimm verið vistaðir í fangaklefa.

Þá segir að erlendur maður hafi verið handtekinn og vistaður í fangaklefa þar sem hann hafi verið „víðáttuölvaður utandyra“. Hann hafi ekki getað tjáð sig vegna ástands síns og sé ekki ljóst hvort hann sé ferðamaður eða búsettur á landinu.

„Ökumaður stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og lyfja. Kom einnig í ljós á síðari stigum að ökumaðurinn hafði gefið upp rangt nafn. Þegar réttu nafni var flétt upp í kerfum lögreglu kom í ljós að ökumaðurinn var einnig sviptur ökuréttindum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×