Innlent

„Þetta er dagurinn til að skella sér á skíði“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Magnús Árnason framkvæmdastjóri Bláfjalla.
Magnús Árnason framkvæmdastjóri Bláfjalla. Vísir

Aðsókn í Bláfjöll var minni í gær en búast hefði mátt við í heiðríkjunni vegna nokkurs hvassviðris á svæðinu að sögn framkvæmdastjóra. Hann býst hins vegar við fjölmenni í dag og skorar á fólk að draga fram skíðin og mæta.

Páskar eru venjulega sá tími sem fjölmennast er í skíðabrekkum landsins og að þessu sinni er hátíðardagskrá í gangi á nokkrum skíðasvæðum. í Hlíðarfjalli á Akureyri er dagskrá í gangi yfir páskana þar sem tónlistarmenn troða meðal annars upp. Þá er furðufatadagur á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar í dag og tónlistardagskrá. 

Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kalt og sólríkt síðustu daga sem hentar venjulega afar vel fyrir skíðaiðkun. Það var hins vegar verið nokkur vindur í Bláfjöllum í gær sem dró aðeins úr skíðafólki að sögn Magnúsar Árnasonar framkvæmdastjóra en í heildina hafi verið góð aðsókn síðustu daga. 

„Í Dymbilvikunni frá mánudegi til miðvikudags var aðsóknin með fínasta móti eða tvö þúsund til tvö þúsund og fimm hundruð manns á dag. Það var hins vegar rólegt í gær og það var bara vegna þess að það var vindur í gær og okkur tókst ekki að opna stólalyfturnar í byrjun dags, þegar við setjum slíkar upplýsingar inn á síðuna það virðist það draga úr fólki. Þótt dagurinn hafi svo reynst vera frábær og lyfturnar fóru í gang þegar leið á daginn,“ segir Magnús. 

Svipað veður er á svæðinu í dag og í gær og Magnús skorar á fólk að mæta.

„Stólalyfturnar eru komnar í gang. Það verður svipaður eða aðeins minni vindur og í gær samkvæmt veðurspá. Svo er spáð meiri vindi á morgun og á páskadag svo þetta er dagurinn til að skella sér á skíði.  Þetta verður ótrúlega fallegur dagur. Fólk þarf klæða sig vel, það verður smá vindur og þar að leiðandi kæling en nú er tíminn til að skíða og njóta,“ segir Magnús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×