Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá embættinu og að það fyrirkomulag sem sé í gildi verði næst endurskoðað 2. apríl. Þar kemur einnig fram að enn stafi ógn af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður. Þá er einnig hætta á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði og að áfram sé aukin hætta vegna gasmengunar.
„Við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á merktu hættusvæði. Fylgst er vel með loftgæðum á svæðinu m.a. í góðu samstarfi við atvinnurekendur,“ segir í tilkynningu lögreglunnar en há gildi af SO2 (brennisteinsdíoxíð) hafa mælst á svæðinu síðustu daga.
Fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins eru beðin að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun.

Þá biðlar lögreglustjóri til íbúa Grindavíkur og annarra sem eiga hagsmuna að gæta inn á merktu hættusvæði að dvelja ekki þar. Aðstæður geti verið lífshættulegar og er þeim, sem eiga erindi til Grindavíkur, bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vef Umhverfisstofnunar.
Mikilvægt er að hafa neðangreint í huga:
• Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð. Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi. Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik. Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri. Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að íbúar dvelji í bænum.
• Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirvara. Hætta er á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum. Hætta er talin mikil á gasmengun og hraunflæði.
• Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun. Þá hafa sprungur verið girtar af.
• Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega. Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
• Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins, verktökum og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa. Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.