Fótbolti

Kæra blaða­mann fyrir hatursorðræðu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Myndin umrædda af Rudiger sem hann birti í tilefni Ramadan.
Myndin umrædda af Rudiger sem hann birti í tilefni Ramadan. Instagram/@toniruediger

Antonio Rüdiger, varnarmaður Real Madrid og þýska landsliðsins í fótbolta, er æfur yfir ummælum blaðamannsins Julians Reichelt sem orðaði Rudiger við hryðjuverkasamtökin ISIS. Bæði Rüdiger og þýska knattspyrnusambandið hafa kært Reichelt.

Málið snýr að ljósmynd sem Rüdiger birti á samfélagsmiðlinum Instagram. Hann er múslimi og birti mynd af sér í hvítum kufli við bænamottu. Á myndinni benti hann einum fingri upp í loft.

Myndin var birt í tilefni af Ramadan, föstumánuði múslima. Við myndina skrifaði Rüdiger: „Megi almáttugur þiggja föstu okkar og bænir“.

Julian Reichelt, fyrrum ritstjóri hjá þýska íþróttamiðlinum Bild, deildi færslu á samfélagsmiðlinum X þar sem hann sagði bendingu Rudigers vera samkvæmt skilgreiningu þýskra stjórnvalda svokallaðan „IS-fingur“ og bendlaði þannig fótboltamanninn við hryðjuverkasamtökin ISIS.

„Reistur vísifingur íslamista, sem hryðjuverkamenn víðsvegar um heim sýna til að fagna morðum sínum, á ekki heima í Þýskalandi,“ er á meðal þess sem Reichelt sagði í færslunni.

Rüdiger hefur kært ummælin til ríkissaksóknara í Berlín og þá hefur þýska knattspyrnusambandið, DFB, tilkynnt málið til sérstakrar deildar sem snýr að vefglæpum hjá ríkissaksóknara í Frankfurt.

Rüdiger kærir Reichelt fyrir meiðyrði en kæra DFB er á grundvelli hatursorðræðu.

Rüdiger neitaði að tjá sig um málið við fjölmiðla í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×