Fótbolti

Ráð­herra sakar þýska sam­bandið um skort á föður­lands­ást

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýska landsliðið hefur unnið fjóra heimsmeistaratitla í Adidas síðast árið 2010.
Þýska landsliðið hefur unnið fjóra heimsmeistaratitla í Adidas síðast árið 2010. AP/Martin Meissner

Það er óhætt að segja að sú ákvörðun þýska knattspyrnusambandsins að hætta samstarfi sínu við Adidas hafi farið illa í suma ráðamenn þjóðarinnar.

Þýsku landsliðin munu hætta að spila í Adidas árið 2026 og skipta í staðinn yfir í Nike frá árinu 2027. Þýsku landsliðin hafa spilað í Adidas í sjötíu ár.

Fjármálaráðherra Þýskalands heitir Robert Habeck og hann er mjög ósáttur með þess ákvörðun.

„Þetta er skortur á föðurlandsást. Ég get ekki ímyndað mér þýska landsliðsbúninginn án þess að vera með rendurnar þrjár á sér,“ sagði Robert Habeck í yfirlýsingu til AFP fréttastofunnar.

Heilbrigðisráðherrann Karl Lauterbach tjáði sig líka á samfélagmiðlum.

„Þeir leyfa sér að eyðileggja mikla hefð,“ skrifaði Lauterbach. Adidas er náttúrulega þýskt merki og það sáu fáir fyrir sér að Þjóðverjar gætu einhvern tímann spilað í bandarísku merki.

Þýska knattspyrnusambandið segir að þessi ákvörðun hafi verið mjög erfið fyrir alla.

Þýska fjármálablaðið Handelsblatt hefur heimildir fyrir því að tilboð Adidas hafi verið á milli 50 og 65 milljón evrur á ári en tilboð Nike hafi aftur á móti verið meira en hundrað milljónir evra á ári.

Þýska sambandið fær því fjörutíu milljónir evra meira á hverju ári frá Nike en það er meira en 5,9 milljarðar í íslenskum krónum.

Rekstur Adidas gengur ekki vel og fyrirtækið skilaði tapi á síðasta rekstrarári sem hafði ekki gerst í þrjá áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×