Innlent

Starf­semi í lóninu vart forsvaranleg að mati lög­reglu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Bláa lónið var rýmt síðastliðið laugardagskvöld þegar eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni nær fyrirvaralaust.
Bláa lónið var rýmt síðastliðið laugardagskvöld þegar eldgos hófst á Sundhnúksgígaröðinni nær fyrirvaralaust. Vísir/Einar

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur vart forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa lóninu við núverandi aðstæður en hætta er talin á loftmengun vegna eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að mat lögreglustjóra sé að ógn stafi af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður. 

Þá sé fylgst vel með hraunrennsli fyrir ofan Suðurstrandarveg sem ógni ekki veginum enn sem komið er. Fylgst sé vel með mengun inn á merktu hættusvæði. Hætta er talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði næstu daga. 

Þá kemur fram að lögregla hafi til rannsóknar atvik inn við Bláa Lónið þar sem starfsmaður þar þurfti að leita sér aðstoðar á sjúkrahúsi vegna gasmengunar. Vinnueftirlitið hafi það atvik jafnframt til skoðunar. 

„Við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á hættumatskorti Veðurstofu Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Lögreglustjóri biðlar til íbúa Grindavíkur svo og aðra sem eiga hagsmuna að gæta inni á merktu hættusvæði að dvelja þar ekki. Þar geti skapast aðstæður sem geta verið lífshættulegar mönnum. 

Loks bendir lögregla þeim sem eiga erindi inn í Grindavík að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×