Fótbolti

Jóhann Berg fékk högg á lærið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson hefur ekki áhyggjur af því að hann geti ekki spilað leikinn.
Jóhann Berg Guðmundsson hefur ekki áhyggjur af því að hann geti ekki spilað leikinn. Vísir/Sigurður

Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, sagði frá því í viðtali við blaðamann Vísis að hann sé að glíma við meiðsli.

Landsliðsfyrirliðinn óttast það þó ekki að missa af leiknum mikilvæga á móti Ísrael annað kvöld í undanúrslitum umspils um sæti á EM í Þýskalandi í sumar.

Jóhann fékk högg og var ekki með íslenska liðinu á æfingu í Búdapest í gær. Hvað er að angra hann?

„Bara einhver stífleiki. Ég fékk smá högg á lærið og það er eitthvað sem við þurfum aðeins að passa upp. Allt í góðu,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson við Stefán Árna Pálsson, blaðamann Vísis.

Verður hann klár? „Já ég verð klár,“ svaraði Jóhann strax.

Jóhann og Åge Hareide landsliðsþjálfari höfðu ekki meiri áhyggjur af þessu en að þeir grínuðust með þetta á blaðamannafundinum í dag.

„Það eru alltaf smá högg sem menn þurfa að glíma við en ekkert alvarlegt," sagði Hareide um stöðuna á íslenska hópnum.

„Ég er gamall," sagði Jóhann léttur um það af hverju hann var ekki með á æfingu. Staðan sé hins vegar góð. 

„Það er einstakt tækifæri að vera tveimur leikjum frá því að komast á EM," sagði Jóhann.

Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport á morgun. Upphitun hefst tíu mínútur yfir sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×