Fótbolti

Richarlison: Þetta bjargaði lífi mínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison er með risastórt hlúðflúr á bakinu á sér þar sem hann er á milli þeirra Ronaldo og Neymar Jr.
Richarlison er með risastórt hlúðflúr á bakinu á sér þar sem hann er á milli þeirra Ronaldo og Neymar Jr. Getty/Alex Pantling

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison hjá Tottenham er afar þakklátur fyrir sálfræðimeðferðina sem hann fékk sjálfur á sínum tíma og er því mjög ánægður með að brasilíska landsliðið sé nú komið með sálfræðing til starfa hjá sér.

Marisa Lucia Santiago hefur verið ráðin sem liðssálfræðingur brasilíska landsliðsins en framundan er Copa America keppnin og áframhald á undankeppni HM þar sem Brasilíumenn eru aðeins í sjötta sætinu eftir sex leiki.

„Það er mjög mikilvægt fyrir landsliðið að hafa sálfræðing til að hjálpa leikmönnum,“ sagði Richarlison.

„Það erum aðeins við sjálfir sem þekkjum pressuna sem við glímum við, ekki aðeins inn á vellinum heldur utan hans líka. Ég þjáðist sjálfur meira utan hans. Það er mjög mikilvægt að geta leitað til sálfræðings,“ sagði Richarlison.

„Við þekkjum fordómanna sem koma upp þegar einhver segist vera að leita sér hjálpar. Þannig var það hjá mér en ekki lengur,“ sagði Richarlison.

„Ég, sem landsliðsmaður og með rödd til að hafa áhrif, segi fólki að leita sér hjálpar því það bjargaði mínu lífi. Ég var þegar kominn á botninn,“ sagði Richarlison.

Hinn 26 ára gamli Richarlison sagði frá því í september að hann hefði leitað aðstoðar sálfræðings eftir erfiða tíma sem höfðu slæm áhrif á frammistöðu hans inn á vellinum. Richarlison var að glíma við langvinn nárameiðsli sem endaði loks með því að hann fór í aðgerð í nóvember.

„Það voru margir erfiðir mánuðir með mikinn sársauka í náranum. Blessunarlega þá fór ég í aðgerðina og hún gekk vel. Ég lagði mikla vinnu á mig og kom fyrr til baka en búist var við. Nú líður mér eins og ég sé hundrað prósent,“ sagði Richarlison.

Hann getur náð að spila sinn fimmtugasta landsleik ef hann spilar bæði á móti Englandi og Spáni í þessum glugga.

„Ég vil ekki hætta núna heldur halda áfram. Ég vil líka fá að halda upp á hundraðasta landsleikinn,“ sagði Richarlison.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×