Fótbolti

Ekki með Ítalíu eftir meinta kyn­þátta­for­dóma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Francesco Acerbi (til vinstri) verður ekki með ítalska landsliðinu í komandi leikjum.
Francesco Acerbi (til vinstri) verður ekki með ítalska landsliðinu í komandi leikjum. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Francesco Acerbi, miðvörður toppliðs Inter Milan, hefur dregið sig úr landsliðshópi Ítalíu fyrir komandi verkefni eftir ásakanir um kynþáttafordóma í leik Inter og Napolí á dögunum.

Hinn 36 ára gamli Acerbi hefur leikið 34 A-landsleiki á ferli sínum sem spannar nærri tvo áratugi. Hann upphaflega valinn í hópinn sem leikur vináttulandsleiki við Venesúela og Ekvador í Bandaríkjunum en Gianluca Mancini hefur nú tekið sæti hans.

Í leiknum gegn Napoli fór Juan Jesus, upp að dómara leiksins sem kallar Acerbi í kjölfarið til sín. Í gær, mánudag, birti Jesus svo færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hann segir Acerbi hafa notað orðið „svartur“ á niðrandi hátt. Hinn 36 ára gamli Acerbi neitar sök og var ekki refsað á meðan leik stóð.

Í yfirlýsingu frá FIGC, ítalska knattspyrnusambandinu, segir að Acerbi hafi útskýrt sína hlið fyrir landsliðsþjálfaranum Luciano Spalletti og samherjum sínum. Þar hélt hann því statt og stöðugt fram að engin niðrandi orð hefur verið látin falla og hann hafi á engan hátt gerst sekur um kynþáttaníð. Það var þó ákveðið að hann myndi stíga til hliðar að þessu sinni og ekki vera hluti af hópnum að þessu sinni.

Jesus hefur aðra sögu að segja og segir að Acerbi hafi beðið sig afsökunar eftir að hann kvartaði til dómara leiksins. Ku Acerbi hafa sagt „farðu í burtu, þú ert bara svartur.“

„Í dag breytti hann staðreyndum málsins og segist ekki hafa sagt neitt sem túlka má sem kynþáttaníð. Ég hef engu við það að bæta,“ sagði Jesus einnig á Instagram-síðu sinni.

Rannsókn á málinu stendur nú yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×