Fótbolti

Þrír dagar í EM-um­spil: Neituðu að mæta Ísrael þegar þeir komust síðast á stór­mót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Ísrael og Ítalíu á heimsmeistaramótinu í Mexíkó fyrir 54 árum. Það er síðasti leikur Ísraelsmanna á stórmóti.
Frá leik Ísrael og Ítalíu á heimsmeistaramótinu í Mexíkó fyrir 54 árum. Það er síðasti leikur Ísraelsmanna á stórmóti. Getty/Mario De Biasi

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefur ekki komist á stórmót í sex ár eða síðan strákarnir okkar voru með á HM í Rússlandi sumarið 2018. Það er þó ekkert í samanburði við bið Ísraelsmanna.

Ísland og Ísrael mætast á fimmtudaginn í undanúrslitum umspils um laust sæti á EM í Þýskalandi í sumar.

Það er liðin meira en hálf öld síðan Ísraelsmönnum tókst síðast að tryggja sér sæti á stórmóti.

Það gerðist síðast á heimsmeistaramótinu í Mexíkó 1970. Síðan hafa Ísraelsmenn farið í gegnum tuttugu undankeppnir HM eða EM án þess að komast áfram. Þeir hafa líka fært sig milli Álfusambanda. Voru áður í Asíusambandinu, komu stutt við í Eyjaálfu en hafa verið hluti af UEFA undanfarna þrjá áratugi.

Það fylgir þó sögunni að leið þeirra á heimsmeistaramótið fyrir 54 árum var mjög sérstök.

Norður-Kórea dró sig þá úr keppni af því Norður-Kóreumenn neituðu að spila við Ísrael. Áður höfðu múslimaríki Asíu neitað að spila við Ísraelsmenn vegna deilnanna við Palestínumenn.

Ísrael, sem þá fór í gegnum undankeppni Asíu, mætti því engri Asíuþjóð í undankeppninni en liðið sat hjá í fyrstu umferðinni.

Ísraelsk landsliðið vann síðan Nýja-Sjáland tvisvar sinnum í undanúrslitum umspilsins og tryggði sér þar með úrslitaleiki á móti Ástralíu. Þar vann Ísrael heimaleikinn á sjálfsmarki og komst svo áfram á jafntefli í seinni leiknum í Sydney.

Ísrael spilaði þrjá leiki á HM í Mexíkó 1970 og árangurinn var ekki alslæmur. Liðið tapaði fyrsta leiknum á móti Úrúgvæ en gerði svo jafntefli við Ítalíu og Svíþjóð.

Ísrael var vísað úr Knattspyrnusambandi Asíu árið 1974 þegar Múslimaríkin lögðust öll á eitt gegn þátttöku Ísraelsmanna.

Ísrael tók þátt í undankeppni Evrópu fyrir HM 1982 og hefur síðan verið fullgildur meðlimur UEFA frá 1994 eftir að hafa áður tekið þátt í Evrópuhluta undankeppni HM 1994.

Síðan Ísraelsmenn urðu meðlimir í UEFA hefur þeim aldrei tekist að komast á stórmót. Þeir komust tvisvar í umspil um sæti á Evrópumótinu, fyrst fyrir EM 2000 og svo aftur fyrir EM 2020.

Í umspilinu fyrir EM 2000 töpuðu Ísraelsmenn samanlagt 8-0 í tveimur leikjum á móti Dönum og í umspilinu fyrir fjórum árum duttu þeir út í undanúrslitum C-deildar á móti Skotum eftir vítakeppni.

Ísraelsmenn komust líka í umspil fyrir HM 1990 en töpuðu þá samanlagt 1-0 á móti Kólumbíu eftir markalaust jafntefli í síðari leiknum í Ísrael. Það sérstaka við það að Ísrael komst í þetta umspil sem fulltrúi Eyjaálfu en hvorki í gegnum Asíu né Evrópu.

Ísrael er því eina þjóðin sem hefur keppt í undankeppnum þremur álfa eða Asíu, Eyjaálfu og Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×