Fótbolti

Andri Lucas skoraði í lang­þráðum sigri Lyng­by

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu Vísir/Getty

Fjölmargir Íslendingar komu við sögu í lokaumferð deildakeppninnar í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Íslendingalið Midtjylland fer í góðri stöðu í úrslitakeppnina.

Þrír íslenskir leikmenn voru í byrjunarliði Lyngby sem mætti Viborg á heimavelli. Lyngby hafði ekki unnið sigur í deildinni síðan Freyr Alexandersson hætti sem þjálfari og biðin eftir þremur stigum orðin ansi löng.

Þeirri bið lauk hins vegar í dag. Lyngby vann góðan 2-0 sigur og skoraði Andri Lucas Guðjohnsen seinna mark Lyngby. Auk hans voru þeir Kolbeinn Finnsson og Sævar Atli Magnússon í liði Lyngby sem lýkur deildakeppninni í 8. sæti deildarinnar.

Sverrir Ingi Ingason var í vörn Midtjylland sem tryggði sér efsta sæti deildarinnar fyrir úrslitakeppnina. Liðið vann í dag 3-0 sigur á Vejle og lék Sverrir Ingi allan leikinn í vörn Midtjylland sem léku einum fleiri allan seinni hálfleikinn.

Varamaður Orra Steins skoraði

Stefán Teitur Þórðarson og samherjar hans í Silkeborg máttu sætta sig við stórt tap gegn Bröndby á útivelli. Stefán Teitur var í byrjunarliði Silkeborg en var tekinn af velli á 72. mínútu í stöðunni 4-1.

Mikael Neville Anderson var í byrjunarliðinu hjá Aarhus sem vann 1-0 sigur á Hvidovre á heimavelli. Aarhus lauk deildakeppninni í 5. sæti og er tólf stigum á eftir toppliði Midtjylland.

Þá byrjaði Orri Steinn Óskarsson í framlínunni hjá FC Kaupmannahöfn sem vann 2-0 útisigur á Odense. Orri Steinn var tekinn af velli á 61. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Andreas Cornelius seinna mark FCK en hann kom inn af bekknum fyrir Orra Stein. FCK er í þriðja sæti deildakeppninnar og aðeins þremur stigum á eftir Midjylland á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×