Fótbolti

Mbappé brjálaður vegna kebabs og hótar lög­sókn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mbappé og Klub kebab sem er sagður eins og höfuðið hans í laginu.
Mbappé og Klub kebab sem er sagður eins og höfuðið hans í laginu. Samsett/Getty/Klub Kebab

Kylian Mbappé hyggst lögsækja eiganda kebabstaðar í Marseille vegna lýsingar á samloku á staðnum sem vísar í nafn hans. Brauðinu í lokunni er sagt líkja til höfuðlags frönsku stjörnunnar.

Áhrifavaldurinn Mohamed Henni, sem er nokkuð þekktur í Frakklandi, rekur staðinn Klüb kebab í Marseille í sunnanverðu Frakklandi.

Þar er í boði rétturinn Klüb kebab, sem heitir eftir staðnum, og er um að ræða kebabkjöt í hringlaga brauði. Eins og segir í lýsingu staðarins á matseðli: „Í brauði sem er eins hringlaga og höfuðið á Mbappé“.

Klub kebab samlokan umrædda.Klub kebab

Henni er Marseille stuðningsmaður og með tæplega tvær milljónir fylgjenda á Instagram. Hann fékk bréf frá Delphine Verheyden, lögmanni Mbappé, fyrir hönd fyrirtækisins KMA. Mbappé stofnaði það fyrirtæki til að halda utan um styrktarsamninga og ímyndarrétt.

Í bréfinu er þess krafist að Henni fjarlægi nafn Mbappé af matseðlinum innan átta daga ellegar fari málið fyrir dómstóla vegna óheimilar notkunar á nafni fótboltakappans í auglýsingaskyni.

Á matseðlinum er einnig að finna rétt sem nefndur er í höfuð Dimitri Payet, fyrrum landsliðsmanns Frakka, sem lék með Marseille og West Ham en er nú samningsbundinn Vasco da Gama í Brasilíu.

Sá réttur er vefja sem er „eins hlaðin og Payet“. Ekki hefur heyrst af lögsókn af hendi Payet vegna þessa.

Hin mjög svo hlaðna Payet vefja.Klub kebab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×