Innlent

Segir for­manninn haldinn „at­hyglis­sýki á loka­stigi“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sveinn Andri segist hlakka til að fá nýjan formann í haust.
Sveinn Andri segist hlakka til að fá nýjan formann í haust. Vísir/Samsett

Sveinn Andri Sveinsson verjandi sakborninga í hryðjuverkamálinu segir Sigurð Örn Hilmarsson, formann Lögmannafélags Íslands, vera haldinn athyglissýki á lokastigi vegna ummæla hans í viðtali við Ríkisútvarpið fyrr í dag.

Í viðtalinu sagðist Sigurður ekki taka undir með Sveini og meðverjanda hans Einari Oddi Sigurðssyni að niðurstaða hryðjuverkamálsins sé áfellisdómur fyrir embætti ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara.

Sigurður segir í viðtalinu að sýknudómurinn í gær hafi ekki komið sér á óvart vegna þess hvað sönnunarmatið sé strangt þegar metinn er ásetningur fólks en Sveinn hefur verið mjög gagnrýninn á störf lögreglu í málinu.

„Formaður Lögmannafélagsins er haldinn athyglissýki á lokastigi og er einstaklega laginn við það að koma sér í fjölmiðla til að tjá sig um mál sem hann hefur ekki hundsvit á og þekkir ekkert til; til þess eins að láta ljós sitt skína,“ segir Sveinn í færslu sem hann birti á síðu sína á Facebook í dag.

Í færslunni segir hann sig og meðverjanda sinn hafa farið í gegnum allt málið frá upphafi til enda og fylgst með „ raðklúðri og síendurteknum mistökum lögreglu við meðferð málsins.“ Þeir séu þar af leiðandi í betri stöðu til að tjá sig fyrir hönd sinna umbjóðenda um störf lögreglu og ákæruvalds í málinu.

„Í hvaða umboði er formaður Lögmannafélagsins að tjá sig um mál sem e.t.v. mun fara áfram á áfrýjunarstig eða verða grundvöllur skaðabótakröfu?“ spyr Sveinn.

„Það væri óskandi að formaðurinn gæti tileinkað sér það stundum að þegja frekar en að tjá sig. Sérstaklega þegar hann hefur ekkert með það að gera að gaspra í fjölmiðlum um einstök mál sem eru rekin fyrir dómstólum og hann hefur enga aðkomu að. Mikið verður gott að fá nýjan formann í vor,“ skrifar Sveinn.


Tengdar fréttir

„Áfellisdómur fyrir ákæruvaldið og ríkislögreglustjóra“

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson verjendur sakborninga í hryðjuverkamálinu segja niðurstöðuna áfellisdóm fyrir embætti ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara. Sakborningar voru sakfelldir fyrir vopnalagabrot en sýknaðir af þeim ákærulið sem sneri að hryðjuverkum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×