Fótbolti

Mbappe fékk að byrja og skoraði í bikarsigri PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar Lucas Beraldo eftir að sá síðarnefndi skoraði þriðja mark Parísarliðsins í leiknum.
Kylian Mbappe fagnar Lucas Beraldo eftir að sá síðarnefndi skoraði þriðja mark Parísarliðsins í leiknum. Getty/Franco Arland

Paris Saint Germain komst áfram í undanúrslit franska bikarsins eftir 3-1 sigur á Nice í lokaleik átta liða úrslitanna í kvöld.

Kylian Mbappe var á bekknum í síðasta deildarleik en hann var í byrjunarliðinu í kvöld. Franski framherjinn skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins fjórtán mínútna leik eftir stungusendingu frá Fabian Ruiz.

PSG hafði ekki unnið þessa leiki sem Mbappe var ekki í byrjunarliðinu eða tekinn snemma af velli en hann fékk að spila allar 90 mínúturnar í kvöld.

Mbappe og félagar eru skrefi nær því að vinna franska bikarinn í fyrsta sinn frá 2021. Hann er kominn með fjögur mörk í þremur bikarleikjum á leiktíðinni.

Fabian Ruiz skoraði sjálfur annað markið á 33. mínútu eftir sendingu frá Ousmane Dembele.

Gaetan Laborde minnkaði muninn á 37. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik.

Lucas Beraldo kom PSG í 3-1 á 60. mínútu. Það reyndist vera lokamark leiksins.

Lyon, Valenciennes og Rennes höfðu áður unnið sína leiki í átta liða úrslitunum. PSG mætir Rennes í undanúrslitaleiknum en sá leikur fer fram 3. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×