Fótbolti

Þriðju deildarliðið sjokkerar menn í Þýska­landi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kai Brünker fagnar sigurmarki gærkvöldsins.
Kai Brünker fagnar sigurmarki gærkvöldsins. Getty

Þriðju deildarlið Saarbrücken fer mikinn í þýsku bikarkeppninni og vann enn einn stórsigurinn í gær. Borussia Mönchengladbach er nýjasta fórnarlamb Saarbrücken sem er komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Saarbrücken vann 2-1 sigur á Gladbach í 8-liða úrslitum bikarsins í gær á dramatískan hátt. Robin Hack kom gestunum í Gladbach yfir á áttundu mínútu en Amine Naifi jafnaði skömmu síðar.

Það var svo mark Kai Brünkers á þriðju mínútu uppbótartíma sem skaut Saarbrücken í undanúrslit bikarsins.

Um er að ræða þriðja úrvalsdeildarliðið sem Saarbrücken slær úr keppni en þegar hafa Bayern München og Eintracht Frankfurt orðið þeim að bráð.

Saarbrücken er ekki eina liðið sem hefur komið á óvart í bikarkeppninni í ár en aðeins eitt úrvalsdeildarlið stendur eftir í keppninni. Topplið þýsku úrvalsdeildarinnar, Bayer Leverkusen, sem hefur ekki enn tapað leik í öllum keppnum á leiktíðinni.

Hin tvö liðin koma bæði úr Bundesligu 2, B-deildinni í Þýskalandi, Kaiserslautern og Fortuna Düsseldorf.

Saarbrücken mætir Kaiserslautern í undanúrslitum þann 2. apríl og degi síðar eigast Leverkusen og Düsseldorf við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×