Fótbolti

Sex­tíu og tveir í bann fyrir að ljúga til um aldur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wilfried Nathan Doualla er meðal þeirra sem hafa verið dæmdir í bann.
Wilfried Nathan Doualla er meðal þeirra sem hafa verið dæmdir í bann. Instagram@nathan_wilfried10

Knattspyrnusamband Kamerún, Fecafoot, hefur sett 62 leikmenn í bann fyrir að ljúga til um aldur.

Um liðna helgi gaf Fecafoot út lista með 62 leikmönnum sem hafa nú verið dæmdir í leikbann fyrir að ljúga um aldur sinn. Þar á meðal er Wilfried Nathan Doualla, miðjumaður Victoria United FC. Ef marka má heimildir veraldarvefsins, til að mynda vefsíðuna Transfermarkt, er Douala fæddur þann 15. maí árið 2006.

Nú hefur Fecafoot gefið út að leikmaðurinn, sem er einnig fyrirliði Victoria Utd, sé einn þeirra sem laug til um aldur og mun því ekki fá að spila með liðinu það sem eftir lifir leiktíðar.

Doualla komst í fréttirnar í Kamerún þegar hann var óvænt meðal þeirra sem valdir voru í hópinn fyrir Afríkumótið sem fram fór fyrr á árinu. Rigobert Song, þjálfari Kamerún, fékk mikið hrós fyrir að vera með puttann á púlsinum og velja efnilega leikmenn úr deildinni heima fyrir.

Á endanum fékk Doualla ekkert að spila og Kamerún féll úr leik gegn Nígeríu í 16-liða úrslitum. Nígería fór alla leið í úrslit Afríkukeppninnar þar sem liðið tapaði 2-1 fyrir Fílabeinsströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×