Fótbolti

Harry Kane með þrennu í risasigri Bæjara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og Leon Goretzka skoruðu saman fimm af átta mörkum Bayern München í dag.
Harry Kane og Leon Goretzka skoruðu saman fimm af átta mörkum Bayern München í dag. Getty/Alexander Hassenstein

Bayern München létti mikilli pressu af liðinu með því að komast áfram í Meistaradeildinni í vikunni og liðið fór síðan á kostum í þýsku deildinni í dag.

Bæjarar unnu þá 8-1 risasigur á Mainz á heimavelli sínum Allianz Arena. Með sigrinum þá minnkaði Bayern forskot Bayer Leverkusen á toppnum í sjö stig. Lærisveinar Xabi Alonso eiga leik inni.

Enski landsliðsframherjinn Harry Kane skoraði þrennu í leiknum og er þar með kominn með þrjátíu deildarmörk á sínu fyrsta tímabili með liðinu. Kane hefur skorað þessi 30 mörk í aðeins 25 leikjum.

Kane skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu og kom Bayern síðan í 3-1 á sjöundu mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Bayern var 3-1 yfir í hálfleik en annað mark liðsins skoraði Leon Goretzka.

Í seinni hálfleiknum yfirspilaði Bayern gestina o bættu við fimm mörk. Kane innsiglaði þrennu sína á 70. mínútu en þá höfðu Thomas Müller, Serge Gnabry og Jamal Musiala allir skorað í seinni hálfleiknum.

Síðasta markið skoraði síðan Goretzka í uppbótartímanum. Hann átti stórleik, skoraði tvö mörk og gaf líka tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×