Fótbolti

Mikil­vægur sigur Gló­dísar og fé­laga skilaði fjögurra stiga for­skoti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði þýsku meistaranna í Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir er fyrirliði þýsku meistaranna í Bayern München. Getty/Massimo Insabato

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í Bayern München eru komnar með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku kvennadeildarinnar.

Bayern vann mikilvægan 2-1 útisigur á Eintracht Frankfurt, liðinu í þriðja sæti, í hörkuleik í dag.

Bayern liðið vann þar með sinn fimmta deildarleik í röð og er komið með 39 stig en næstar eru Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Wolfsburg með 35 stig. Wolfsburg á þó leik inni.

Klara Bühl kom Bayern í 1-0 á 21. mínútu eftir stoðsendingu frá þeirri dönsku Pernille Harder.

Þannig var staðan í hálfleik en Laura Freigang jafnaði metin á 66. mínútu. Glódís reyndi að komast fyrir skotið en tókst það ekki.

Lea Schüller var hins vegar hetja Bæjarar þegar hún skallaði inn fyrirgjöf Katharina Naschenweng á fjarstönginni en sigurmarkið kom á 77. mínútu.

Glórís Perla bar fyrirliðabandið að venju og lék allan tímann í miðri vörn liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×