Fótbolti

Ísak fagnaði sterkum sigri en Ingi­björg bíður enn

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson á ferðinni gegn Hamburg í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson á ferðinni gegn Hamburg í kvöld. Getty/Stefan Brauer

Ísak Bergmann Jóhannesson ætti að koma fullur sjálfstrausts í komandi landsliðsverkefni eftir gott gengi hjá Fortuna Düsseldorf. Liðið vann sterkan 2-0 sigur gegn Hamburg í kvöld, í þýsku B-deildinni í fótbolta.

Ísak var að vanda í byrjunarliði Düsseldorf og lék nánast allan leikinn. Heimamenn komust yfir á elleftu mínútu, með marki Felix Klaus, og hagur þeirra vænkaðist enn þegar Hamburg missti Moritz Heyer af velli með rautt spjald snemma í seinni hálfleik. Christos Tzolis innsiglaði svo sigur Düsseldorf á 63. mínútu.

Düsseldorf er núna í 7. sæti með 37 stig, fjórum stigum á eftir Hamburg sem er í 3. sæti en liðið sem endar í því sæti fer í umspil um að komast upp í efstu deild. St. Pauli og Holstein Kiel eru í efstu tveimur sætunum, með 48 og 43 stig.

Þórir Jóhann Helgason var í byrjunarliði Braunschweig og lék í klukkutíma þegar liðið tók á móti Hansa Rostock, en eftir að Þórir fór af velli skoruðu gestirnir eina mark leiksins. Sigurinn var dýrmætur fyrir Hansa Rostock sem komst upp í 16. sæti, einu stigi upp fyrir Braunschweig sem nú situr í fallsæti.

Lið Ingibjargar enn án sigurs

Það gengur fátt upp hjá Duisburg, liði landsliðskonunnar Ingibjargar Sigurðardóttur, en liðið er enn án sigurs eftir fjórtán leiki og virðist ætla að kveðja efstu deild. Ingibjörg gekk til liðs við félagið í janúar.

Í kvöld tapaði Duisburg 4-1 fyrir Essen á útivelli, eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik. Ingibjörg lék allan leikinn í vörn Duisburg.

Duisburg er aðeins með fjögur stig í tólfta og neðsta sæti, sjö stigum frá næsta örugga sæti, en Essen er með 18 stig í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×