Fótbolti

Mascherano um við­ræður við Messi: Ekki auð­velt fyrir hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Mascherano talar við Lionel Messi þegar þeir léku saman á HM í Rússlandi 2018.
Javier Mascherano talar við Lionel Messi þegar þeir léku saman á HM í Rússlandi 2018. Getty/Chris Brunskill

Javier Mascherano, þjálfari Ólympíuliðs Argentínumanna, segist hafa rætt við Lionel Messi um að Messi spili með liðinu á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Mascherano staðfestir vissulega viðræðurnar en segir að staðan sé langt frá því að vera einföld. Félög eru ekki skuldbundin til að sleppa leikmönnum á Ólympíuleikana. Þar keppa undir 23 ára landslið en þau mega taka með sér þrjá eldri leikmenn.

Það er almennt búist við því að Messi spili með Argentínu í Suður-Ameríkukeppninni fyrr um sumarið. Sú keppni fer fram 20. júní til 10. júlí en Ólympíuleikarnir eru síðan frá 24. júlí til 10. ágúst.

„Ég hef talað við Leo og við ákváðum að halda áfram að tala saman,“ sagði Mascherano sem var liðsfélagi Messi hjá bæði Barcelona og argentínska landsliðinu.

„Hann var að byrja tímabilið með Inter Miami og við höfum enn tíma fram að Ólympíuleikunum. Við verðum líka að taka tillit til þess að Copa América er í sumar. Þetta er ekki auðvelt fyrir hann,“ sagði Mascherano.

„Við verðum bara að sjá til hvort hann hafi orkuna í þetta. Þetta er ekki okkar ætlun að trufla hann eða setja pressu á hann. Við buðum honum þennan möguleika að fyrra bragði og gáfum honum allar upplýsingarnar sem hann þarf að hugsa um og tala um við félagið sitt,“ sagði Mascherano.

„Það er ekki auðvelt fyrir hann að útskýra enn frekari fjarveru fyrir Inter Miami. Hann mun taka þetta ákvörðun þegar rétti tíminn rennur upp,“ sagði Mascherano.

Mascherano og Messi urðu Ólympíumeistarar saman á leikunum í Peking fyrir sextán árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×