Fótbolti

Sjáðu mörk Mbappé og Kane í Meistara­deildinni í gær­kvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar hér öðru marka sinna fyrir Bayern München í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær.
Harry Kane fagnar hér öðru marka sinna fyrir Bayern München í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær. Getty/Daniel Kopatsch

Stórstjörnurnar Kylian Mbappé og Harry Kane voru báðir á skotskónum í mikilvægum leikjum í Meistaradeildinni í gærkvöldi og nú má sjá mörkin úr leikjunum hér inn á Vísi.

Paris Saint-Germain og Bayern München urðu í gær fyrstu liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.

Kylian Mbappé skoraði bæði mörk Paris Saint-Germain í 2-1 útisigri á Real Sociedad en franska liðið vann þar með 4-1 samanlagt. Mbappé skoraði þrjú af fjórum mörkum í einvíginu.

PSG hafði dottið út í sextán liða úrslitunum undanfarin tvö tímabil og alls fimm sinnum á síðustu sjö tímabilum og þetta var því langþráð takmark hjá Mbappé og félögum á hans síðasta tímabili með liðinu.

Klippa: Mörkin úr leik Sociedad og PSG

Harry Kane skoraði líka tvö mörk þegar Bayern vann 3-0 heimasigur á ítalska félaginu Lazio. Lazio hafði unnið fyrri leikinn 1-0 en tvö mörk Bæjarara fyrir hlé komu liðinu í góð mál.

Kane skoraði fyrsta markið, Thomas Müller jók muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiksins og Kane innsiglaði síðan sigurinn með öðru marki sínu sem kom á 66. mínútu.

Kane var réttur maður á réttum stað í teignum í báðum mörkunum þegar boltinn datt fyrir hann. Fyrra markið skoraði hann með skalla en það síðara með skoti eftir frákast.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr leikjunum tveimur.

Klippa: Mörkin úr leik Bayern og Lazio




Fleiri fréttir

Sjá meira


×