Fótbolti

Spilaði 106 lands­leiki en líður samt eins og út­lendingi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henrik Larsson fagnar marki sínu fyrir Manchester United á sínum tíma.
Henrik Larsson fagnar marki sínu fyrir Manchester United á sínum tíma. Getty/Martin Rickett

Henrik Larsson er einn frægasti og farsælasti sænski knattspyrnumaður sögunnar. Larsson segist þó ekki líða eins og gegnheilum Svía í nýju viðtali.

Blaðamaður Guardian heimsótti Larsson til Närlunda, í úthverfi Helsingborg, þar sem hann ólst upp. Larsson svaraði þar meðal annars spurningum um þjóðerni sitt og æskuna.

Getty/Martin Rickett

„Ég sé sjálfan mig sem útlending,“ sagði Henrik Larsson um leið og hann horfir upp á gömlu íbúðina sem fjölskyldan bjó í. Guardian ræddi við sænsku goðsögnina.

„Ég veit samt ekki hver ég er ef ég segi alveg eins og er. Ég veit að ég spilaði 106 landsleiki fyrir Svíþjóð og ég veit að ég er þannig séð Svíi. Mér leið samt aldrei eins og hundrað prósent Svía,“ sagði Larsson.

Hann skoraði 37 mörk í þessum landsleikjum sem hann lék á árunum 1993 til 2009. Þrjú af þessum mörkum skoraði hann á móti Íslandi og hann skoraði í þremur heimsmeistarakeppnum (1994, 2002 og 2006) og tveimur Evrópumeistaramótum (2000 og 2004).

Larsson sló fyrst fyrir alvöru í gegn sem leikmaður Celtic í Skotlandi þar sem hann skoraði 174 mörk í 221 leik. Hann fór þaðan til Barcelona og lék í smá tíma með Manchester United. Síðustu árin á ferlinum spilaði hann þó með Helsingborgs IF í Svíþjóð.

„Ég verð að virða arfleifð föður míns [Er frá Grænhöfðaeyjum] og það er kannski þess vegna. En mér leið ekki eins og Svía fyrr en ég fór að ná árangri inn á fótboltavellinum. Þegar þú ert ekkert þá skiptir þú ekki máli. Þegar þú ert eitthvað þá ertu hluti af þessu samfélagi. Þá gleymir fólk hvaðan þú kemur og hver kynþáttur þinn er,“ sagði Larsson.

„Það voru útlendingar sem bjuggu hér, fólk frá Júgóslavíu, Grikklandi og Finnlandi. Á þessum stað var ég hins vegar sá eini sem var dökkur. Ég lenti því í nokkrum slagsmálum hér. Ef þeir kalla þig með N-orðinu eða eitthvað viðlíka þá var ég vanur að berja þá. Ég held að það hugarfar komi að heiman. Þú verður að standa með sjálfum þér. Þetta var ekki auðveld æska. Þú hefur tvo kosti; þú annað hvort leggst niður og ferð að gráta eða heldur áfram. Ég valdi seinni kostinn,“ sagði Larsson.

Hér fyrir ofan má lesa allt viðtalið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×