Fótbolti

Ríkjandi meistarar úr leik en Halmstad heldur á­fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valgeir Lunddal og félagar í BK Häcken eru úr leik í bikarkeppninni.
Valgeir Lunddal og félagar í BK Häcken eru úr leik í bikarkeppninni. Marius Becker/picture alliance via Getty Images

BK Häcken mun ekki takast að verja bikarmeistaratitil sinn í Svíþjóð eftir að liðið féll úr leik í dag. Halmstad hélt hins vegar áfram í átta liða úrslit eftir 1-0 sigur gegn Värnamo. 

Bikarkeppni Svíþjóðar er með það fyrirkomulag að skipta liðunum í átta fjögurra liða riðla, efsta lið hvers riðils heldur svo áfram í 8-liða úrslit. 

BK Häcken endaði í 2. sæti riðilsins eftir svekkjandi 1-1 jafntefli gegn Brommapojkarna í dag. BK Häcken komast snemma yfir en gestirnir jöfnuðu undir lok fyrri hálfleiks. Valgeir Lunddal spilaði svo seinni hálfleik leiksins.

Halmstad stóð uppi sem sigurvegari í sínum riðli eftir 1-0 sigur gegn Värnamo og heldur áfram í 8-liða úrslit. Birnir Snær Ingason var í byrjunarliði Halmstad annan leikinn í röð en komst ekki á blað. Gísli Eyjólfsson var á bekknum en kom inn á völlinn á 69. mínútu. Þeir gengu báðir til liðs við Halmstad fyrr í vetur.

Átta leikir fara fram á morgun og á mánudag fara svo síðustu fjórir leikir riðlakeppninnar fram en þar mætast meðal annars Íslendingaliðin Sirius og Norrköping, með þá Óla Val Ómarsson og Arnór Ingva Traustason innanborðs.

Dregið verður í 8-liða úrslit strax og allir leikir riðlakeppninnar klárast á mánudagskvöld. Átta liða og undanúrslitin fara svo fram næstu tvær helgar, 9.-10. mars og 16.-17. mars. Úrslitaleikurinn verður spilaður á Uppstigningardegi, 9. maí. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×