Fótbolti

Öskureiðir eftir rauðu spjöldin og saka Pulisic um ó­í­þrótta­manns­lega hegðun

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dómarinn sýndi fádæma lipurð þegar hann reif upp rauða og gula spjaldið á sama tíma.
Dómarinn sýndi fádæma lipurð þegar hann reif upp rauða og gula spjaldið á sama tíma. Paolo Bruno/Getty Images

Leikmenn og stjórnarmenn Lazio eru öskureiðir dómaranum Marco di Bello eftir að hann rak þrjá leikmenn liðsins af velli í leik gegn AC Milan í gærkvöldi. 

Luca Pellegrini fékk gult spjald fyrir brot á 50. mínútu og leit svo annað gult sjö mínútum síðar þegar hann reyndi að stöðva leik vegna meiðsla Taty Castellanos. Þar sem dómarinn hafði ekki stöðvað leikinn reyndi Christian Pulisic að ná boltanum af Pellegrini, sem ýtti þá við Pulisic og uppskar gult spjald.  

Það sauð svo allt upp úr þegar komið var fram í uppbótartíma en þá fengu Adam Marusic og Matteo Guendozi báðir rautt. 

Luca Pellegrini, sem fór fyrstur af velli, birti svo færslu á Instagram þar sem hann sagði óíþróttamannslega hegðun hafa unnið leik kvöldsins og næst þegar liðsfélagi hans lægi blóðugur myndi hann bara sparka boltanum lengst upp í stúku í stað þess að stoppa inni á vellinum. 

Stefano Pioli, forseti AC Milan, svaraði Pellegrini nokkurn veginn í viðtali eftir leik. Þá sagði hann reglur leiksins skýrar, ef dómarinn flautar ekki er leikurinn ekki stopp og skal haldið áfram. Hann var algjörlega ósammála því að Pulisic hafi sýnt óíþróttamannslega hegðun. 

Antonello Aurigemma, forseti Lazio, var harðorður í gagnrýni sinni á dómarann. Hann sagði algjöran skort á gagnsæi í ákvarðanatöku dómara og kallaði eftir því að hlutlaus þriðji aðili yrði fenginn til að skera úr um leikbann leikmanna sinna. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Marco di Bello hneykslar á flautunni. Hann dæmdi leik Juventus gegn Bologna í upphafi tímabils og var sendur í rúmlega mánaðarlangt leyfi  vegna mistaka í leiknum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×