Fótbolti

Rigndi rauðum spjöldum í Róm

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dómarinn sýndi fádæma lipurð þegar hann reif upp rauða og gula spjaldið á sama tíma.
Dómarinn sýndi fádæma lipurð þegar hann reif upp rauða og gula spjaldið á sama tíma. Paolo Bruno/Getty Images

AC Milan vann 1-0 útisigur á Lazio í eina leik kvöldsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Heimamenn í Lazio enduðu leikinn með aðeins 8 leikmenn inn á vellinum.

Fyrri hálfleikur í Róm var heldur tilþrifalítill og staðan markalaus þegar liðin gengu til búningsklefa. Luca Pellegrini fékk gult spjald á 50. mínútu og annað slíkt sjö mínútum síðar. Hann var því sendur í sturtu og heimamenn manni færri.

Það nýttu gestirnir frá Mílanó sér en það hafði þegar verið dæmt mark af þeim þegar Noah Okafor kom AC Milan yfir þegar tvær mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. 

Það var svo þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sem allt sauð upp úr. Endaði það með því að Adam Marusic og Matteo Guendouzi fengu báðir rautt í liði Lazio. 

Á sama tíma fengu Rafael Leão og Christian Pulisic gult í liði gestanna. Skömmu síðar var flautað til leiksloka en heimamenn luku leik þremur færri.

Menn misstu hausinn undir lok leiks. EPA-EFE/FEDERICO PROIETTI

AC Milan er nú í 3. sæti með 56 stig, stigi minna en Juventus sem er sæti ofar og á leik til góða. Lazio er í 8. sæti með 40 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×