Fótbolti

Bayern og PSG misstigu sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manuel Neuer íhugull að leik loknum.
Manuel Neuer íhugull að leik loknum. EPA-EFE/RONALD WITTEK

Þýskalandsmeistarar Bayern München eru að missa af lestinni eftir 2-2 jafntefli gegn Freiburg í kvöld. Frakklandsmeistarar París Saint-Germain gerðu þá markalaust jafntefli við Monaco.

Bayern hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið eins og frægt er orðið. Heimamenn í Freiburg helltu olíu á eldinn þegar Christian Gunter kom þeim yfir eftir tólf mínútna leik. Hinn ungi Mathys Tel jafnaði metin þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks, staðan 1-1 í hálfleik.

Jamal Musiala kom meisturunum yfir þegar stundarfjórðungur lifði leiks og virtist sem Bayern myndi ná að halda einhverskonar pressu á Bayer Leverkusen á toppi deildarinnar. Lucas Holer jafnaði hins vegar metin þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, lokatölur 2-2.

Bayern er sem stendur með 54 stig í 2. sæti, sjö stigum á eftir Leverkusen sem á leik til góða.

Í Frakklandi gerðu meistarar PSG markalaust jafntefli við Monaco á útivelli. PSG er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 55 stig að loknum 24 leikum. Monaco er í 3. sæti með 42 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×