Íslenski boltinn

Aron Elís á leið í mynda­töku: „Mjög svekkjandi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aron Elís var að komast af stað eftir kviðmeiðsli þegar hann meiddist á ökkla í gær.
Aron Elís var að komast af stað eftir kviðmeiðsli þegar hann meiddist á ökkla í gær. Vísir/Hulda Margrét

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Íslandsmeistara Víkings, fór meiddur af velli í leik Víkings og ÍA í Lengjubikar karla í gær. Óljóst er hversu alvarleg meiðslin eru, en Aron kveðst ekki of áhyggjufullur.

Undir lok fyrri hálfleiks í leik gærdagsins steig Jón Gísli Eyland Gíslason, leikmaður Skagamanna, á Aron í með þeim afleiðingum að Aron sneri upp á ökklann. Hann virtist sárþjáður og var skipt af velli fyrir Óskar Örn Hauksson.

„Þetta var bara óhapp. Hann steig á mig og ég sneri upp á ökklann,“ segir Aron Elís í samtali við Vísi en af tóninum að dæma virtist hann ekki of áhyggjufullur.

„Þetta er einhver tognun á ökkla, það er lítið komið í ljós. Ég fer í myndatöku sem fyrst og fátt hægt að segja þangað til. Bara eins og ökklatognanir eru er erfitt að segja hversu alvarlegt þetta er,“ segir Aron.

Klippa: Aron Elís meiðist

Aron hafði verið að glíma við kviðmeiðsli í vetur en hefur verið að vinna sig hægt og rólega í sitt besta form. Það eru honum því enn meiri vonbrigði að meiðast þegar hann var að komast aftur á fullan skrið.

„Ég er búinn að fara varlega í gang og búinn að byggja upp mínútur. Þess vegna er mjög svekkjandi að þetta gerist í gær. Planið var að taka sextíu mínútur í gær og byggja ofan á það. En það fór sem fór,“ segir Aron Elís.

Aron er ekki á hækjum en lætur þó reyna sem minnst á ökklann eftir höggið í gær. Frekari fregna er að vænta eftir myndatöku.

37 dagar í mót

ÍA og Víkingur skildu jöfn, 1-1, eftir hörkuleik í Akraneshöllinni þar sem Nikolaj Hansen tryggði Víkingum stig með marki undir lok leiks.

Víkingur er með sex stig eftir fjóra leiki í þriðja sæti riðils fjögur í A-deild Lengjubikarsins. Víkingur hefur gert þrjú jafntefli og unnið einn leik. ÍA er efst í riðlinum með stigi meira, líkt og KA.

Rétt rúmur mánuður er þar til boltinn fer að rúlla í Bestu deild karla en Víkingar opna mótið laugardaginn 6. apríl þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Víkina.

Víkingar eiga titil að verja eftir að hafa unnið tvöfalt í fyrra en Aron Elís var á meðal betri leikmanna liðsins eftir að hann samdi við uppeldisfélagið um mitt mót.

Myndband af atvikinu þegar Aron meiðist má sjá að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×