Enski boltinn

Pochettino: Ekki í mínum höndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino ræðir við leikmenn sína í klefanum á Wembley.
Mauricio Pochettino ræðir við leikmenn sína í klefanum á Wembley. Getty/Darren Walsh

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, var enn á ný spurður út í framtíð sína hjá félaginu á blaðamannafundi fyrir bikarleik liðsins í kvöld.

Chelsea tapaði úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley á sunnudaginn og Pochettino á enn eftir að vinna titil í enska fótboltanum.

Chelsea er líka aðeins í ellefta sæti í ensku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að fjárfesta rosalega í leikmönnum síðustu misseri. Allur þessi peningur í nýja leikmenn en lítill sem enginn árangur inn á vellinum.

Chelsea mætir Leeds í bikarnum í kvöld og á blaðamannafundi fyrir leikinn var Pochettino spurður af því hversu mikinn tíma hann hefði til að snúa hlutunum við á Stamford Bridge.

„Þetta er ekki í mínum höndum. Það er mjög gott samband milli mín og eigendanna sem og við íþróttastjórann. Það er undir þeim komið hvort þeir vilja treysta ferlinu,“ sagði Mauricio Pochettino. BBC segir frá.

„Þegar við töpum þá snýst alltaf umræðan um peningana en eigendurnir vilja búa til eitthvað öðruvísi. Þetta er bara byrjunin á verkefninu. Þess vegna er ekki hægt að líkja þessu saman við fortíðina. Samt er þetta alltaf Chelsea og milljarðurinn og það er erfitt að berjast á móti þeirri umræðu,“ sagði Pochettino.

„Það segir enginn eitthvað neikvætt um Liverpool eða City. Þá er það bara að þú vinnur þegar þú vinnur og tapar þegar þú tapar. Þetta er allt öðruvísi með Chelsea vegna allrar pressunnar út af þessum einum milljarði punda sem félagið eyddi í leikmannahópinn. Að mínu mati er það ósanngjarnt en ég sætti mig við ólíka skoðun á því,“ sagði Pochettino.

Pochettino talaði við eigendurna eftir úrslitaleikinn á sunnudaginn.

„Við sögðum frá okkar sýn á leikinn og möguleika okkar á að vinna þarna bikar. Við spiluðum vel í níutíu mínútur,“ sagði Pochettino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×