Enski boltinn

Hefur aldrei séð lið verjast eins og United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester United hefur ekki varist vel í vetur.
Manchester United hefur ekki varist vel í vetur. getty/Matthew Peters

Jamie Carragher hefur séð ýmislegt á löngum ferli í fótboltanum en hann hefur aldrei séð lið verjast eins og Manchester United.

Vörn United hefur ekki verið góð í vetur og klikkaði enn og aftur þegar liðið tapaði fyrir Fulham á laugardaginn, 1-2.

Carragher fór yfir varnarleik United í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

„Við förum yfir af hverju varnarleikur þeirra er slakur og þeir geta ekki varist skyndisóknum. Það er enginn hraði í varnarlínunni og það vantar hlaupagetu á miðjunni. Annað stórt vandamál er þegar þeir eru með boltann,“ sagði Carragher.

„Þessir leikmenn geta ekki fengið boltann í stöðunum sem þeir koma sér inn svo það er stórt vandamál fyrir United þegar þeir eru með boltann. Hversu oft höfum við séð leikmenn United þurfa að hlaupa tæpa fjörutíu metra í átt að eigin marki?“

Carragher er algjörlega gáttaður á uppleggi Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra United.

„Ég hef aldrei séð lið verjast svona. Það sem ég meina með því er að þeir pressa framarlega en vörnin er aftarlega. Þeir eru að reyna að gera tvo hluti á sama tíma en þú getur bara gert annað hvort. Það eru allir að pressa framarlega eða verjast aftarlega en þeir reyna að gera bæði,“ sagði Carragher.

Tapið á laugardaginn var fyrsta tap United á árinu 2024. Liðið er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 44 stig og jafna markatölu. Liðið hefur skorað 36 mörk og fengið á sig jafn mörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×