Sport

Missti ekki einu sinni hattinn sinn þegar þrír menn réðust á hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cam Newton elskar hattana sína. Hann var um tíma ein allra stærsta stjarnan í NFL deildinni.
Cam Newton elskar hattana sína. Hann var um tíma ein allra stærsta stjarnan í NFL deildinni. Getty/Christopher Polk

Myndbönd af slagsmálum hjá fyrrum NFL stórstjörnu fóru á mikið flug á netmiðlum um helgina.

Þrír menn réðust þá á Cam Newton á unglingamóti í Atalanta en kappinn missti ekki einu sinni hattinn sinn í slagsmálunum. ESPN segir frá.

Þetta var unglingamót með sjö manna liðum í amerískum fótbolta. Mótið heitir We Ball Sports x DynastyU 7v7 tournament.

Newton er þekktur fyrir sérhönnuðu hattana sínu sem eru eins og klipptir út úr galdramannasögum. Það fór því ekkert á milli mála hver var þarna á ferðinni.

Margir voru því með símana á lofti þegar slagsmálin hófust. Newton togaði árásarmennina til og frá en lét þá að mestu um hnefahöggin. Það þurfti marga menn til að eiga við hann og komust þeir samt lítið áleiðis enda hélt  Newton hattinum sínum allan tímann.

Atvikið varð efst í tröppum og endaði út við grindverk eftir að öryggisverðir og lögreglumaður á svæðinu náðu að skilja á milli mannanna.

Cam Newton var valinn besti leikmaður NFL-deildarinnar árið 2015 og þótti á sínum einstakur leikstjórnandi í deildinni. Hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu þegar hann kom inn í deildina.

Hraustur með eindæmum og skoraði margoft sjálfur með því að hlaupa með boltann í markið.

Hann er frá Atlanta og rekur þar C1N fyrirtækið sem hjálpar ungum leikmönnum að fá tækifæri til að sýna hæfileika sína í ameríska fótboltanum í gegnum sjö á móti sjö boltanum. Þess vegna var hann staddur á þessu móti. 

Eitthvað hefur orðið til þess að allt fór í bál og brand milli hans og mannanna en hvað það er kemur ekki fram í bandarískum fjölmiðlum sem fjalla um atvikið.

Hér fyrir ofan og neðan má sjá myndbönd af atvikinu.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×