Fótbolti

Fyrsti Ís­lendingurinn til að skora í frönsku deildinni í átta ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson er kominn á blað með Lille í Frakklandi.
Hákon Arnar Haraldsson er kominn á blað með Lille í Frakklandi. Getty/ANP

Hákon Arnar Haraldsson varð í gær aðeins sjöundi Íslendingurinn sem nær að skora í efstu deild í Frakklandi.

Hákon var búinn að spila fjórtán leiki með Lille án þess að skora og fyrir leikinn í gær var hann búinn að vera inn á vellinum í 420 mínútur.

Hákon var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu síðan í lok september og þakkaði traustið með því að koma Lille yfir á lokamínútu fyrri hálfleiksins. Það dugði þó ekki því Toulouse skoraði þrjú mörk í seinni hálfleiknum og vann 3-1 sigur.

Sex leikmenn hafa nú bæst í hópinn síðan að Albert Guðmundsson varð sá fyrsti til að skora í frönsku deildinni á nýársdag 1950.

Aðrir sem hafa skorað í deildinni eru Þórólfur Beck, Teitur Þórðarson, Karl Þórðarson, Arnór Guðjohnsen og sá síðasti til að skora á undan Hákoni var Kolbeinn Sigþórsson.

Eiður Smári Guðjohnsen og Veigar Páll Gunnarsson spiluðu báðir í frönsku deildinni án þess að ná að skora. Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson spilaði einnig í deildinni.

Síðasta mark Kolbeins Sigþórssonar fyrir Nancy kom í leik á móti Bordeaux 23. janúar 2016.

Albert Guðmundsson er markahæsti Íslendingurinn í sögu frönsku deildarinnar með 22 mörk, Teitur Þórðarson skoraði 20 mörk og Karl Þórðarson náði að skora tólf mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×